Vísitala, Sumartónleikar í Skálholti og sköpunarkraftur náttúrunnar
Víðsjá - A podcast by RÚV
Categories:
Hagfræði og myndlist, fagurfræði og fjármál - þetta eru heimar sem sjaldan mætast þannig að úr verði listaverk. En á fimmtudag opnaði í Ásmundarsal einkasýning Geirþrúðar F. Hjörvar sem kallast Vísitala. Þar eru listaverk sem sprottin eru upp úr persónulegri hrifningu Geirþrúðar á tölfræðilegum breytum settum fram á sjónrænan máta sem einföld tölfræðirit. Vísitala sækir innblástur í skýringarmyndir fjármálakerfisins og einnig þá hugmynd að hægt sé að formgera efnahagsstefnur í haldbæra hluti. Við hittum Geirþrúði F. Hjörvar í Ásmundarsal í þættinum. ?Getum við tamið okkur að hugsa minna eins og einstaklingar og meira eins og ein heild? Reynt að sjá hvernig allur lífsvefurinn er samfelldur þráður með uppruna í sama punktinum.? Freyja Þórsdóttir ætlar að kafa ofan í djúpið, alla leið til uppruna lífsins. í lokapistli sínum hér í Víðsjá. Þar fjallar um sköpunarkraftinn sem býr í náttúrunni og okkur sjálfum (og hvernig við tökum hann stundum út úr hringrásinni og beitum honum á hátt sem er á skjön við heilbrigði jarðarinnar og lífsins). Sumartónleikar í Skálholti hefjast á morgun og standa yfir til 9.júlí. Benedikt Kristjánsson tenórsöngvari er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri þetta árið, en hann flutti aftur heim til Íslands fyrir tveimur árum, eftir margra ára dvöl erlendis. Benedikt hefur verið önnum kafinn sem sjálfstætt starfandi söngvari síðan hann flutti til Berlínar 2008, og hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlaun frá því hann útskrifaðist frá Hanns Eisler-tónlistarháskólanum í Berlín 2015. Hann hefur komið fram í mörgum stærstu tónleika- og óperuhúsum heims, er stöðugt á ferðinni og bókaður langt fram í tímann, en hann hefur gefið sér tíma til að stýra hinni rótgrónu tónlistarhátíð Sumartónleika í Skálholti.