Veður fyrir Veðurstofuna, Heimur í orðum, Rúmmálsreikningur/rýni
Víðsjá - A podcast by RÚV
Categories:
Á laugardaginn opnar samsýningin Veður fyrir veður í húsnæði Veðurstofu Íslands og í undirgöngunum þar sunnan við. Sýningarstjórn er í höndum þeirra Söru Riel og Eddu Ýrar Garðarsdóttur en markmið sýningarinnar er, að sögn Söru, að gefa sálarfæði inn í hversdaginn, fyrir starfsfólk Veðurstofunnar. Sýningin samanstendur af úrvali verka íslenskra listamanna, sem eiga það sameiginlegt að hverfast um veðrið. Hún fær að standa í sex mánuði fyrir starfsfólk Veðurstofunnar, en verður opin almenningi þessa einu helgi. Hluti sýningarinnar er þó kominn til að vera, útilistaverk Söru Riel, í undirgöngunum undir Bústaðaveginn. Raunar spratt hugmyndin að samsýningunni út frá útilistaverkinu, sem varð að nokkurs konar samfélagsverkefni síðasta sumar, þegar íbúar Suðurhlíðar tóku þátt í að mála sólskinið inn í göngin. Við könnum veðrabrigðin í göngunum milli lífs og dauða í síðari hluta þáttar. Gauti Kristmannsson verður einnig með okkur í dag. Að þessu sinni rýnir hann í fyrsta og annað bindi af Rúmmálsreikningi Solvej Balle, í þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur. En við hefjum þáttinn á því að fara í Eddu þar sem fyrsta handritasýning hússins opnar um helgina. Það var stór stund í vikunni þegar fyrstu handritin voru flutt úr Árnagarði og yfir í nýtt öryggisrými í Eddu. Handritin hafa verið geymd í í Árnagarði síðan í byrjun áttunda áratugarins en 20 ár eru síðan hætt var að sýna handritin þar, vegna lélegrar aðstöðu og ótryggs sýningarrýmis. Handritasýning Árnastofnunar var í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu á árunum 2002 til 2013 en var einnig lokað vegna öryggismála. Sýningin Heimur í orðum verður opnuð í Eddu á degi íslenskrar tungu, laugardaginn 16. nóvember, og þá gefst í fyrsta sinn í langan tíma kostur á að sjá þennan ómetanlega menningararf, en meðal handrita á sýningunni eru frægustu íslensku miðaldahandritin, Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók. Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir