Svipmynd: Jón Kristinsson, arkitekt og uppfinningamaður

Víðsjá - A podcast by RÚV

Categories:

Arkitektúr er ekki bara að teikna hús, segir Jón Kristinsson arkitekt, heldur svo margt annað. Arkitektúr er að vita hvar sólin kemur upp, hvernig þú athafnar þig við eldavélina, hvernig halda megi húsi hreinu og þurru, hvernig spara megi orku og skilja eitthvað eftir fyrir komandi kynslóðir. Því þú teiknar aldrei hús fyrir sjálfan þig, heldur alltaf fyrir komandi kynslóðir. Í verkum Jóns er formið ekki upphafið, heldur alltaf afleiðing af sjálfbærri hugsun. Jón er fæddur á Stýrimannastíg í Reykjavík árið 1936. Eftir stúdentspróf fluttist hann til Hollands þar sem hann nam arkitektúr við Tækniháskólann í Delft. Í Hollandi er Jón landsþekktur maður og hans þekktasta hús, Villa Flora frá 2012, er kallað vistvænasta hús Hollands og þó víðar væri leitað. Jón hefur verið kallaður faðir sjálfbærs arkitektúrs enda hefur hann alla tíð hannað á framúrstefnulegan hátt, með umhverfisvitund og orkusparnað að leiðarljósi. Umsjón: Halla Harðardóttir