Svipmynd af ljósmyndara: Pétur Thomsen

Víðsjá - A podcast by RÚV

Categories:

Pétur Thomsen kemur úr ljósmyndarafjölskyldu og vissi snemma að hann vildi taka myndir. Það var á unglingsárunum sem hann uppgötvaði að ljósmynd gæti verið myndlist, og að hann gæti orðið listamaður. Á námsárunum í Frakklandi fylgdist hann með umræðunni um Kárahnjúkavirkjun úr fjarlægð og fann að hann yrði að taka þátt, á sinn hátt. Ljósmyndaserían Aðflutt landslag, sem er vitnisburður um framkvæmdirnar við virkjunina og hugleiðing um samband manns og náttúru, er sennilega hans þekktasta verk, verk sem hefur verið verðlaunað og ferðast víða um veröld. Pétur myndar fyrst og fremst landslag en segist eiga í flóknu sambandi við landslagsljósmyndum. Upphafning hins rómantíska landslags er honum fjarri. Það er frekar hið ægifagra með sínum undirliggjandi ótta sem hægt er að tengja við fagurfræði hans. Pétur er Reykvíkingur en korter í hrun ákvað hann að kaupa sér hús á Sólheimum í Grímsnesi þar sem hann býr í dag með fjölskyldu sinni. Þar er hann með sína vinnustofu og þar heldur hann úti útvarpsþætti ásamt þjónustuþegum á Sólheimum. Pétur er gestur Víðsjár í Svipmynd þessa vikuna.