Svipmynd af listamanni: Melanie Ubaldo
Víðsjá - A podcast by RÚV
Categories:
Melanie Ubaldo fæddist árið 1992 á Filippseyjum en býr nú og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2022, hefur tekið þátt í fjölda sýninga hérlendis og erlendis og eru verk hennar í eigu helstu safna landsins. Melanie hlaut styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur fyrir efnilega listamenn 2021 og hún hlaut, ásamt félögum sínum í listamannaþríeykinu Lucky 3, Hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna í fyrra. Verk Melanie eru oftast sjálfsævisöguleg og varpa ljósi á heim Íslendinga af erlendum uppruna, á fordóma, misrétti og hatursorðræðu. En einnig kvennamenningu, uppeldi, tengsl, heimili og minningar. Hún notast við fjölbreytta miðla og verkin hennar eru oft stór í sniðum, hún hefur mikið notast við textíl, samansaumuð málverk, texta og arkitektónískar innsetningar. Melanie er pólitísk og beitt í verkum sínum en á sama tíma eru verkin fíngerð og oftar en ekki fögur á að líta, sem er kannski ekki tilviljun því Melanie segir starf listamannsins felast í því að fegra heiminn. Melanie Ubaldo er gestur Víðsjár í Svipmynd dagsins.