Svipmynd af leikstjóra: Þorleifur Örn Arnarsson
Víðsjá - A podcast by RÚV
Categories:
Þorleifur Örn Arnarsson er meðal þekktari leikstjóra Íslands og hefur einnig fagnað miklum vinsældum í Þýskalandi undanfarin ár. Hann útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ árið 2003 og lauk námi í leikstjórn frá Ernst Busch leiklistarháskólanum í Berlín árið 2009. Á ferli sínum hefur Þorleifur sett upp fjölda verka hér á landi og uppskorið viðurkenningar fyrir, má þar helst nefna Engla alheimsins, Njálu, Guð blessi Ísland og Rómeó og Júlíu. Í Þýskalandi hefur hann unnið með heimsbókmenntirnar og ekki síst vakið athygli fyrir óperu-uppsetningar sínar. Þorleifur Örn hlaut Faust verðlaunin fyrir uppsetningu sína á Eddu árið 2018; ein eftirsóttustu leiklistarverðlaun Þýskalands, verðlaun sem þar í landi eru einungis veitt hverjum listamanni einu sinni á ævinni. Þorleifi er umhugað um þá umbrotatíma sem við lifum á og segist finna til ábyrgðar sinnar innan leikhúsmiðilsins sem hann segir vera mikilvæga tilraunastofu siðferðisins; rými þar sem við hittum fyrir persónur sem við erum ósammála en fáum að kynnast þeirra sjónarhorni á heiminn. Hann þakkar uppeldi sínu fyrir þau gagnrýnisgleraugu sem hann hefur getað sett upp við lestur á menningararfi og segir hina gefnu túlkun kanónunar á heimsbókmenntum gjarnan litaða af tíðaranda verks og orðræðu feðraveldisins.