Svipmynd af klarínettuleikara / Arngunnur Árnadóttir
Víðsjá - A podcast by RÚV
Categories:
Arngunnur Árnadóttir er tónlistarkona og rithöfundur. Hún byrjaði snemma að læra á hljóðfæri. Eftir að hafa lokið forskóla Tónmenntaskólans í Reykjavík langaði hana að hefja nám á saxófón en vegna fingralengdar var henni frekar ráðlagt að leggja fyrir sig klarínett. Á unglingsárum sínum kom henni til hugar að hætta hljóðfæranámi en á þeim tíma spilaði hún í fyrsta skipti með sinfóníuhljómsveit og komst hún í tæri við töfra flutningsins. Arngunnur stundaði síðan framhaldsnám í klarínettuleik við Listaháskóla Íslands og við Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín og hefur frá haustinu 2012 gegnt stöðu fyrsta klarínettuleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Samhliða tónlistinni hefur Arngunnur sent frá sér tvær ljóðabækur og eina skáldsögu. Fyrstu ljóðabók sína, Unglingar, byrjaði hún að skrifa í vetrarfríi í Berlín og gaf út í seríu Meðgönguljóða árið 2013. Skáldsagan Að heiman fylgdi þar á eftir og lýsir í meitluðum og stílhreinum prósa tilveru Unnar í Reykjavík og segir frá ferðalagi hennar út á land. Síðast sendi Arngunnur frá sér ljóðabókina Ský til að gleyma, sem fjallar meðal annars um tregablandna eftirsjá eftir tíma og fólki sem rennur ljóðmælanda úr greipum.