Svipmynd af Bergþóru Snæbjörnsdóttur
Víðsjá - A podcast by RÚV
Categories:
Bergþóra Snæbjörnsdóttir ætlaði sér aldrei að verða rithöfundur. Hún lærði sálfræði, ritlist og hagnýta menningarmiðlun áður en hún fann með sjálfri sér að skapandi ritsmíðar væru kannski ágætis vinna. Hún vann nýverið Maístjörnuna, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands, fyrir ljóðsöguna Allt sem rennur. Bergþóra kom geisandi fram á ritvöllinn með ljóðsögunni Flórída árið 2017, verk sem vakti mikla athygli og var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna og Maístjörnunnar. Áður hafði Bergþóra gefið út ljóðabókina Daloon dagar sem kom út árið 2011 og prósasafnið Dagar undrabarnsins eru á enda. Fyrsta skáldsaga Bergþóru, Svínshöfuð, sem kom út árið 2019, hreppti Fjöruverðlaunin og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, auk þess sem hún var valin besta skáldsaga ársins af bóksölum. Bergþóra Snæbjörnsdóttir er fædd árið 1985 og ólst upp við Úlfljótsvatn í Grafningi. Í dag er hún tveggja barna móðir í Reykjavík sem stefnir á að gefa út sína aðra skáldsögu undir lok þessa árs. Við kynnumst Bergþóru betur í þætti dagsins.