Æskuteikningar Alfreðs Flóka, Veður í Æðum og Þegar sannleikurinn sefur/rýni

Víðsjá - A podcast by RÚV

Categories:

Ragnheiður Lárusdóttir steig fram á ritvöllinn 2020 með ljóðabókina 1900 og eitthvað og hlaut í kjölfarið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og tilnefningu til Maístjörnunnar. Þessi fyrsta ljóðabók hennar byggði á bernskuminningum að vestan, en sú næsta, Glerflísakliður, fjallaði meðal annars um veikindi móður Ragnheiðar og erfiðan skilnað. Í síðustu bók sinni, Kona/Spendýr sem kom út 2022 beindi hún sjónum sínum almennt að hlutverki kvenna, sem lifa í heimi hönnuðum af körlum. Í sinni nýjustu ljóðabók, Veður í æðum, er Ragnheiður einnig persónuleg og yrkir um þá lífsreynslu að missa dóttur sína í heim fíkninnar, en líka um fegurðina og lífið sem gengur sinn vanagang þrátt fyrir allt. Halla ræðir við Ragnheiði í þætti dagsins. Við fáum líka bókarýni frá Sölva Halldórssyni, sem að þessu sinni rýnir í nýútkomna glæpasögu Nönnu Rögnvaldsdóttur, Þegar sannleikurinn sefur. En við hefjum þáttinn á því að grúska aðeins í gömlum teikningum. Nú eru til sýnis og sölu í Gallerí Fold æskuteikningar Alfreðs Flóka sem flestar eru frá árunum 1948-1952. Teikningarnar varðveittust innan fjölskyldunnar og þar má sjá inn í hugarheim hins unga Flóka og þekkja kunnugleg stef sem birtust í listaverkum hans ferilinn allan. Framan af voru hugðarefnin dæmigerð fyrir 11 og 12 ára gamlan strák, löggur og bófar, indjánar og kúrekar, þjóðsögur og ævintýri, Charlie Chaplin og Mikki mús, táfýla og yfirburðir KR svo eitthvað sé nefnt. Mikill húmor er í mörgum teikningunum, en einnig ber á ádeilu. Við lítum við á Rauðarárstígnum og ræðum um sýninguna við sýningarstjórann, Iðunni Vignisdóttur. Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir