Rúnar Guðbrandsson / Svipmynd

Víðsjá - A podcast by RÚV

Categories:

Rúnar Guðbrandsson hafði ekki þolinmæði fyrir einsleitninni á Íslandi á kaldastríðsárunum, ákvað strax eftir menntaskóla að fara eins langt og hann kæmist, og endaði á því að fara að mestu gangandi frá Danmörku, til Indlands og upp í Himalya fjöllin. Útrásin og forvitnin fyrir því því sem er handan hornsins, handan götunnar, hafa verið leiðarstef í lífi hans og hann varð snemma spenntur fyrir leiklist. Sýn Rúnars á leikhús umbreyttist þegar hann 17 ára sá tvær óhefðbundnar leiksýningar í Danmörku. Eftir nám og störf á því sviði þar í landi bættist við margvísleg þjálfun í leiktækni í Póllandi, Ítalíu, Bretlandi, Rússlandi og víðar. Rúnar hefur áralanga reynslu sem leikhúslistamaður bæði á Íslandi og erlendis. Auk þess að starfa sem leikari, höfundur og leikstjóri hefur Rúnar kennt leiktúlkun og fengist við ýmis konar tilraunstarfsemi á vettvangi sviðslista og kvikmynda. Hann stofnaði leikhópinn Lab -Loka árið 1992, sem hefur undir stjórn Rúnars hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna, og Heimilislausa leikhúsið 2015, sem leiddi af sér ýmis leikhúsverkefni á jaðrinum í Evrópu, m.a. með föngum og kynlífsverkafólki. Rúnar lítur á leikhúsið sem orkustöð. Hann segir aðferðafræðina skipta höfuðmáli því það vanti aldrei hugmyndir; leikhúsið sé farvegur til að nema ný lönd. Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir