Prinsessuleikarnir, Kerfi í Berg contemporary, Roni Horn
Víðsjá - A podcast by RÚV
Categories:
Í Berg Contemporary við Klapparstíg var opnuð um liðna helgi sýningin Kerfi þar sem ný verk eftir Heklu Dögg Jónsdóttur myndlistarkonu eru til sýnis. Verkin á sýningunni eru þrenns konar: þarna er vídeóverk þar sem þrír litir blandast saman á vatnsyfirborði, í öðru verki rúlla hvítir og svartir textar yfir vegginn á plastrúllum, og svo eru þarna stór pappírs verk, sem ná frá gólfi og upp í loft. Meira um það þegar við göngum um sýninguna með Heklu Dögg í þætti dagsins. Og svo ætlum við að velta fyrir okkur hugmyndinni um prinsessuna. Goðsögnin um hina hreinu og duglegu prinsessu, prúðu og iðnu stúlkuna, sem Grimmsbræður festu á blað, og sem Disney verkmsiðjan festi svo enn betur í sessi í samtíma okkar, lifir enn góðu lífi, en afhverju? Austurríska nóbelskáldið Elfriede Jelinek tekst á við þessar spurningar í Prinsessuleikunum, verki sem Borgarleikhúsið frumsýnir um næstu helgi í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur. Una verður gestur okkar í dag. Á fimmtudaginn síðasta var samþykkt á Alþingi að veita 21 einstaklingi ríkisborgararétt. Athygli vakti að meðal þeirra er bandaríska listakonan Roni Horn sem sannarlega má setja í flokk svokallaðra Íslandsvina eftir áralöng tengsl hennar við land og þjóð. Af þessu tilefni ætlum við að hverfa aftur til ársins 2007, og rifja upp viðtal við listakonuna, sem ræddi þá meðal annars um áhrif Íslands á list hennar, efnahagsmálin sem þá voru á blússandi siglingu og náttúruvernd svo eitthvað sé nefnt.