Hreinsunaraðferðir, Stephen Hough, bókmenntaverðlaun og Brimhólar

Víðsjá - A podcast by RÚV

Categories:

Rétt fyrir hádegi í dag var tilkynnt um tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Ljóðabók­in Laus blöð eft­ir Ragn­ar Helga Ólafs­son, sem Bjart­ur gef­ur út, og skáld­sag­an Ljós­gildr­an eft­ir Guðna Elís­son, sem Les­stof­an gef­ur út, eru til­nefnd­ar til verðlaunanna fyr­ir Íslands hönd. Dómnefndir Norðurlandanna til­nefna í ár sam­tals 14 verk til verðlaun­anna, en sam­eig­in­leg nor­ræn dóm­nefnd vel­ur vinn­ings­hafa árs­ins og verða verðlaun­in af­hent við hátíðlega at­höfn í tengsl­um við 75. þing Norður­landaráðs í Osló 31. októ­ber. Jórunn Sigurðardóttir, bókmenntasérfræðingur Rásar 1, var í Gunnarshúsi í morgun og við fáum hana til að líta við hér í upphafi þáttar og leggja lauslegt mat á tilnefningarnar. Og við heyrum nánar af verkum hins tilnefnda bókmenntafræðings og rithöfundar, Guðna Elíssonar, því Gréta Sigríður Einarsdóttir, bókmenntarýnir Víðsjár, rýnir í dag í aðra skáldsögu Guðna. Sú heitir Brimhólar og kom út hjá Lesstofunni í nóvember síðastliðnum. Í kvöld mun bresk-ástralski stórpíanistinn Stephen Hough leika hinn tilfinningaþrungna og sívinsæla píanókonsert nr 2 eftir Sergei Rachmaninov á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg. Við tökum aðeins púlsinn á þeim merkilega manni og hitum með því upp fyrir kvöldið sem margir unnendur klassískrar tónlistar hafa beðið eftir með tilhlökkun. Við lítum líka við í safnaðarheimili Neskirkju, þar sem myndlistarmaðurinn Arnar Ásgeirsson var í óða önn við uppsetningu á verkum sínum í morgun, fyrir sýningu sem opnar næsta sunnudag og ber titilinn Hreinsunaraðferðir. Þar fara stæltir karlmannslíkamar í plastflöskuformi, sem minna helst á grískar eða rómverskar styttur, líkama krists eða jafnvel hinu ikonísku Jean Paul Gaultier ilmvatnsflösku sem finna má í mörgum unglingsherbergjum. En í þessum flöskum er ekki að finna ilmvatn eða heilagt vatn, heldur ýmsar hreinsivörur, svo sem klósetthreinsi, spritt, uppþvottasápu og jafnvel klór. Arnar segir okkur nánar af sýningunni og hugmyndafræðinni á bakvið Hreinsunaraðferðirnar. Umsjón: Guðni Tómasson og Melkorka Ólafsdóttir