Halla Þórðardóttir, Sif Margrét Tulinius og Íslenski dansflokkurinn/rýni

Víðsjá - A podcast by RÚV

Categories:

Við kynnum okkur nýútkomna hljómplötu sem ber titilinn De Lumine, eða varðandi ljósið. Fiðluleikarinn Sif Margrét Tulinius segir titilinn einkennandi fyrir verkin sem hún leikur á plötunni, sem innihalda meira ljós en myrkur þrátt fyrir sterkar andstæður í tónlistinni. Um er að ræða þrjú einleiksverk fyrir fiðlu, eftir jafn mörg íslensk tónskáld, þá Hjálmar H Ragnarsson, Huga Guðmundsson og Viktor Orra Árnason. Sif Margrét kemur til okkar í lok þáttar og segir okkur nánar af verkefninu. Trausti Ólafsson leikhúsrýnir verður einnig með okkur í dag, en hann fór á frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum síðastliðinn föstudag. Flokkurinn sýndi tvö ný verk: Órætt algleymi eftir Margréti Söru Guðjónsdóttur og Hverfa eftir Melkorku Sigríði Magnúsdóttur. En við byrjum á því að heyra af nýrri ljóðabók sem kallast Sólin er hringur. Höfundur bókarinnar Halla Þórðardóttir er atvinnudansari, starfaði með Íslenska dansflokknum í áratug en Sólin er hringur er hennar fyrsta útgefna skáldverk. Það er taktur og töluverður dans í ljóðum Höllu og tengsl líkama og náttúru eru þar rauður þráður. Hún segir þessi tvö listform, dansinn og ljóðið ansi tengd, og stefnir á að virkja þau tengsl áfram. Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir