Gríman afhent, The Space Lady, YCO í Hörpu og íslenskur Bond

Víðsjá - A podcast by RÚV

Categories:

Það fer örugglega ekki framhjá mörgum sem ferðast um miðbæinn að þar eru víða skilti þar sem á stendur "Var James Bond Íslendingur?" Það er vissulega gömul og þekkt saga að Vestur-Íslendingurinn Sir William Stephenson, vinur manna á borð við Winston Churchill og Ian Fleming, er fyrirmyndin að hinum heimsfræga njósnara. Þeir Hugi Hreiðarsson og Bogi Auðarson hafa fengið þessa sögu á heilann og ferðast um söguslóðir Stephenson. Við heimsækjum sögukjallara í Grófinni sem þeir opnuðu í fyrra Stephenson til heiðurs og ræðum við Huga. Á morgun heldur strengjasveit Tónskóla Sigursveins tónleika í Norðurjósasal Hörpu ásamt bandarískri vinahljómsveit, Youth Chamber Orchestra, YCO. Allur ágóði af miðasölu rennur til bílakaupa til handa Helgu Þórarinsdóttur víóluleikara, kennara og stjórnanda Strengjasveitar Tónskóla Sigursveins, en Helga hlaut mænuskaða eftir slys fyrir rúmum áratug síðan. Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir ræðir við Helgu í þætti dagsins. Teitur Magnússon verður líka með okkur í dag og segir frá glötuðum snillingi. Að þessu sinni fer hann yfir feril geimdömunnar, The space lady. Og Gríman var afhent við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Þar var mikið um dýrðir þegar sviðslistafólkið okkar uppskar eftir viðburðarríkan og fjölbreyttan leikhúsvetur. Við förum yfir nokkrar af þeim grímum sem runnu á listamenn í gær.