Gildi, Á milli mála, lýðræðisvæðing listanna

Víðsjá - A podcast by RÚV

Categories:

Við hefjum þáttinn á því að fara niður að Tjörn, þar sem þær Agnes Ársæls og Anna Andrea Winther sýna keramikskúlptúra í tengslum við Listahátíð í Reykjavík. Verkið, sem þær kalla Milli mála er hluti af stærra rannsóknarverkefni þar sem þær rannsaka samband manns við umhverfi sitt og stigveldið sem birtist í fagurfræði og framkomu okkar við dýr. Listamennirnir segjast pínu hræddir um afdrif verkanna við Tjörnina, svona í ljósi sögunnar, en hvað sem gerist verði væntanlegar uppákomur alltaf hluti af verkinu sjálfu. Það vildi einmitt til að í miðju viðtali var reynt að stela hluta verksins svo óhætt er að segja að það sé í stöðugri vinnslu. Freyja Þórsdóttir heimspekingur verður einnig með okkur í þætti dagsins. Í dag fjallar Freyja um gildi og siðferðilegt hugrekki, meðal annars með vísun í Rosu Parks, Audre Lorde og atburði í Reykjavík síðastliðin föstudag þar sem lögreglan beitti valdi gegn friðsömum mótmælendum. Síðastliðinn fimmtudag hélt breski menningarráðgjafinn Steven Hadley erindi í Norræna húsinu á vegum Háskólans á Bifröst. Erindið kallaði hann: Líkt og kynlíf og súkkulaði? - Menning, lýðræði og endalok listanna. Spurningar sem þar voru til grundavallar voru meðal annars: Hvernig hefur gengið að lýðræðisvæða listirnar? Er það eftirsóknarvert í sjálfu sér, eða er nóg að við segjum að allir hafi aðgang? Hafa allir jafnan aðgang að listum og menningu? Og hvað myndi það þýða ef svo væri? Við ræðum við Stephen Hadley í þættinum.