Flokkstjórinn, sannleikurinn í samskiptum, Hulið og Best fyrir
Víðsjá - A podcast by RÚV
Categories:
Hólmfríður Hafliðadóttir vann í unglingavinnunni og elskaði vinnuna sína, allt þar til hún breyttist í martröð. Hún starfaði eins og flestir unglingar við almenn garðyrkjustörf og vann sig svo upp í flokkstjórastöðu sem hún gegndi í tvö ár. Með tímanum fór hún að upplifa eitraða stemningu, þar sem meðal annars jaðarsettir hópar voru niðurlægðir og hún sjálf lögð í einelti. Komandi úr réttrúnaðarumhverfi framsækinna og fjölmenningarsinnaðra menntskælinga, eins og hún segir sjálf frá, kom henni gjörsamlega í opna skjöldu að vera skyndilega föst í ómenningu einstaklinga sem virtust ekki þurfa að bera nokkra ábyrgð á hegðun sinni. Hólmfríður er í dag sviðshöfundur og leiklistarnemi sem hefur samið ásamt félaga sínum, sviðshöfundinum Magnúsi Thorlacius, einleik sem byggir á þessari reynslu, sem sýndur verður í útileikhúsi í Kópavogi. Framtíðin er ekki óskrifað blað segir aftan á kápu sannsagnasafnsins Best fyrir sem kom út í lok maí. Þar ferðast 7 höfundar, allt nemar í ritlist, um tímann í gegnum heimaslátrun, átök við íslenska veðrið, skíðakennslu á Ítalíu, ómögulegar ástir, eftirpartí, undarlegt háttalag konu um nótt og súran kvíða samtímans. Hvenær kemur framtíðin? Hvenær er hún horfin og orðin að fortíð, útrunninn eins og mjólk í tetra pak fernu á leið í brennslu. Oft góð lengur. Við heyrum lestur úr bókinni í þættinum. Freyja Þórsdóttir verður að vanda í sínu heimspekilega landslagi í pistli dagsins. Freyja fjallar í dag um gildi sannleikans í mannlegum samskiptum og hvernig það má nota tungumálið til að bæði rýra og auðga tengsl. Leikverkið Hulið eftir Sigríði Ástu Olgeirsdóttur var frumsýnt um liðna helgi í Tjarnarbíói. Eva Halldóra Guðmundsdóttir sviðslistarrýnir segir frá sinni upplifun af uppfærslunni.