Börn í Reykjavík, prjónaiðnaður og sellóverk Veronique Vöku

Víðsjá - A podcast by RÚV

Categories:

Við hefjum þátt dagsins á nýju tónverki af plötu sem kom út í síðustu viku, Neige éternelle, five pieces for solo cello, eftir tónskáldið Veronique Vöku, í flutningi Sæunnar Þorsteinsdóttur. Veronique Vaka hefur búið hér á landi frá því að hún útskrifaðist með meistarpróf í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og eru verk hennar innblásin af íslenskri náttúru. Á þessari nýju plötu er að finna fimm verk en hvert og eitt þeirra túlkar eitt skeið í myndun jökuls. Þær Sæunn hafa starfað saman í nokkurn tíma en þessi plata sprettur úr sellókonstertinum Gemæltan sem Veronique samdi sérstaklega fyrir Sæunni og sem var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna í fyrra. Við kynnum okkur nýútkomið stórvirki, Börn í Reykjavík, eftir Guðjón Friðriksson. Bókin er stór og vegleg, vandlega upp sett og hana prýða hátt í sex hundruð ljósmyndir. Börn í Reykjavík var skrifuð að beiðni Barnavinafélagsins Sumargjafar, í tilefni af 100 ára afmæli félagsins, og er skrásett saga barna í Reykjavík frá því seint á 19. öld og fram til okkar daga. Þar er sagt umhverfi barna, námi þeirra og skyldum, leikjum, skemmtunum og félagsstarfi, auk þess sem fjallað er um þróun í barnaverndar-, uppeldis- og skólamálum. Guðjón lítur við í hljóðstofu og segir okkur aðeins af bókinni. Prjónavetur í Lista­safni Sigur­jóns í Laugar­nesi er röð sýn­inga og við­burða sem hófust um liðna helgi um munu standa fram á vor. Þær Brynhildur Pálsdóttir, hönnuður og ein af stofnendum Vík Prjónsdóttur, og Andrea Fanney Jónsdóttir, klæðskeri og prjónahönnuður, standa að baki verkefninu en markmiðið er að varpa ljósi á þá prjónahönnun sem hefur verið framleidd á Íslandi síðustu ár og einnig velta upp stöðu prjónaiðnaðarins, sem þær telja að standi höllum fæti. Prjónaveturinn hefst með sýningunni För, þar sem Andrea Fanney sýnir flíkur sem hún hefur hannað og framleitt síðustu ár. Flíkurnar eru innblásnar af fuglalífi höfuðborgarinnar en hver flík er sprottin úr minningum af fuglum og manneskjum sem þeim tengdust. Staðsetning sýninga og viðburða í Listasafni Sigurjóns er engin tilviljun því Andrea tengist Laugarnesinu sterkum böndum og er ein þeirra sem berst gegn uppbyggingu Faxaflóahafn og Veitna á svæðinu. Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir