Á okkar máli, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma, Reykjavík Dance Festival/rýni
Víðsjá - A podcast by RÚV
Categories:
Fyrir nokkrum árum síðan varð myndlistarkonan Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir vör við fjölgun flóttamanna í heimabæ sínum, Hafnarfirði. Hún tók líka eftir því að þar var fátt sem greip fólkið og ákvað að hafa frumkvæði að því að búa til vettvang þar sem fólk með ólíkan bakgrunn hefði tækifæri til þess að kynnast og taka þátt í samfélaginu. Úr varð fjölbreytt starf með reglulegum listasmiðjum, viðburðum og samverustundum og stofnun hjálparsamtakanna GETU, sem styður við flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd í Hafnarfirði, Kópavogi og nágrenni. Hafnarborg er meðal samstarfsaðila GETU og þar verður á laugardag boðið upp á fjöltyngda listasmiðju þar sem arabísk leturtákn verða innblástur fyrir listræna sköpun, undir leiðsögn listamannanna Yöru Zein og Ingunnar Fjólu. Við lítum við á vinnustofu þeirra í hafnarfirði og heyrum af viðburðinum og samstarfinu. Sinfóníuhljómsveit unga fólksins var stofnuð fyrir 20 árum og heldur upp á það með tvennum tónleikum í Langholtskirkju um helgina. Sveitin var stofnuð um það leyti sem sett var tónlistardeild við Listaháskóla Íslands því það vantaði vettvang fyrir nemendur Gunnsteinn Ólafsson hljómsveitarstjóri er einn stofnenda hljómsveitarinnar og verður gestur okkar í þætti dagsins. Reykjavík Dance Festival lauk eftir nokkurra daga veislu síðastliðinn sunnudag. Katla Ársælsdóttir og Nína Hjálmarsdóttir fóru á nokkrar sýningar sem þær munu rýna í, í þætti dagsins og í næsta þætti. Katla ríður á vaðið í dag með umfjöllun um Konukroppa og When a duck turns 18 a boy will eat her. En við hefjum þáttinn á símtali við semballeikarann Halldór Bjarka Arnarson, sem búsettur er í Sviss, en heldur tónleika undir yfirskriftinni Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma, í Breiðholtskirkju á laugardag. Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir