Grindavík, fjarskiptaöryggi við umheiminn, Hútar og ökklabönd á ofsækjendur kvenna
Spegillinn - A podcast by RÚV
Categories:
Grindavík er hættulegur staður og verður það áfram næstu mánuði og líklega ár. Um þetta eru flestir jarðvísindamenn landsins sammála. Viðvarandi skjálftavirkni og hætta á fyrirvaralitlum eldgosum, gamlar sprungur sem hafa gliðnað og dýpkað og nýjar sprungur sem eru jafnvel ósýnilegar þar til einhverjum verður á að stíga fæti á örþunnt jarðlagið sem hylur þær gera bæinn í raun óbyggilegan eins og er, og illmögulegt er að spá fyrir um það, hvenær þetta breytist til hins betra. Ákall Grindvíkinga eftir aðgerðum stjórnvalda til að tryggja þeim öruggt húsnæði og forða þeim frá gjaldþroti vegna tvöfalds húsnæðiskostnaðar fer hækkandi eftir að þetta lá endanlega fyrir í kjölfar gossins í bænum 14. janúar. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir ræðir við Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra. Samningaviðræður Íslendinga um aðkomu að nýju öryggisfjarskiptakerfi Evrópusambandsins hefjast innan skamms. Með þessu stendur til að tryggja aðgengi, til dæmis að samskiptum við útlönd og netþjónustu ef innviðir á borð við sæstrengi rofna eða verða fyrir skemmdum. Gerðist það í dag myndi íslenskt samfélag að mestu detta úr sambandi við umheiminn. Björn Malmquist tók pistilinn saman. Nokkur stór skipafélög eru tímabundið hætt að láta kaupskip sín sigla um hið hernaðarlega mikilvæga Bab el Mandeb sund, inn á Rauðahaf, um Súezskurð og til Evrópu eftir að vígamenn húta í Jemen hófu að ráðast á þau með flugskeytum og drónum. Þeir hafa lýst yfir stuðningi við Hamas samtökin á Gaza í baráttu þeirra við Ísraelsher og heitið því að stöðva öll skip sem þeir telja að sigli með vörur um Rauðahaf til Ísraels. En hverjir eru Hútar? Ásgeir Tómasson segir frá. Í Noregi stendur til að rýmka heimildir lögreglu til að láta þá sem ítrekað rjúfa nálgunarbann bera öklaband og takmarka þannig ferðafrelsi þeirra. Þetta er svokallaður fyrirbyggjandi neyðarhnappur. Krafan um að beita þessu úrræði hefur verið háværi í Noregi eftir tíð morð og ofbeldi í nánum samböndum í upphafi þessa árs. Nýjar heimildir til lögreglu eiga að vera tilbúnar fyrir vorið. Gísli Kristjánsson segir frá.