Gaza, Miðausturlönd og héraðslækningar

Spegillinn - A podcast by RÚV

Categories:

29. janúar 2024 Daginn eftir að Alþjóðadómstóllinn í Haag ákvað að taka til efnislegrar meðferðar kæru Suður-Afríku á hendur Ísraelsríki fyrir brot á alþjóðalögum um þjóðarmorð sökuðu Ísraelsmenn tólf af um það bil 30.000 starfsmönnum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna við Palestínu um aðild að hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael 7. október síðastliðinn. Í kjölfarið ákváðu nokkur ríki, þar á meðal Ísland, að frysta greiðslur til stofnunarinnar. Rætt er við Svein Rúnar Hauksson, lækni og stjórnarmann í Félaginu Ísland-Palestína, um þessa atburði. Sérfræðingar í málefnum Miðausturlanda eru margir uggandi yfir því að ástandið eigi eftir að versna enn frekar eftir að þrír bandarískir hermenn féllu í drónaárás á bækistöðvar þeirra í Jórdaníu í gær. Íranar eru sakaðir um að hafa staðið á bak við hana. Þeir segjast hvergi hafa komið nærri. Ásgeir Tómasson segir frá. Stefnt er að innleiðingu nýrrar sérnámsleiðar í læknisfræði, héraðslækninga – það eru lækningar í dreifbýli. Héraðslækningar verða þá undirsérgrein heimilislækninga. Eyjólfur Þorkelsson læknir sem stýrði málstofu um héraðslækningar á læknadögum segir þörfina fyrir þessa sérhæfingu mikla. Ásta Hlín Magnúsdóttir ræðir við hann. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Mark Eldred