Eldsumbrot á Reykjanesskaga, vargöld í Ekvador og þróunarsamvinna Íslands og Malaví
Spegillinn - A podcast by RÚV
Categories:
Jarðeðlisfræðingar Veðurstofunnar telja líklegt að kvika hlaupi úr Svartsengi á næstu dögum. Ragnhildur Thorlacius ræddi við Kristínu Jónsdóttur deildarstjóra á Veðurstofunni oum stöðuna þar syðra, viðvarandi landris frá síðasta gosi, 18. desember, kvikuhólf, kvikugang og kvikuflæði, myndun sigdals og ris lands meðfram börmum hans, aðferðir við mælingar á kviku og mat á goslíkum og fleira. Neyðarástand er í Ekvador og her landsins hefur verið fyrirskipað að ráðast gegn glæpahópum sem ógna öryggi almennra borgara og stunda umfangsmikinn útflutning fíkniefna og eiturlyfja til Norður-Ameríku og Evrópu. Fólk treystir sér vart út fyrir hússins dyr vegna vargaldarinnar og óttast um líf sitt í hvert skipti sem það neyðist til að fara á milli staða, enda morðtíðni hvergi hærri í Rómönsku Ameríku en í þessu landi, sem um árabil var talið öruggasta landið i álfunni. Ásgeir Tómasson segir frá. Malaví er landlukt land í suðvestanverðri Afríku. Þar hafa Íslendingar verið í þróunarsamvinnu við stjórnvöld og stofnanir í hartnær 35 ár og gengið vel. Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Lilongve, höfuðstað Malaví, segir að fyrstu tíu árin hafi aðstoðin og samvinnan einkum snúist um fiskveiðar, en feiknarmikið stöðuvatn, Malavívatn, þekur um fjórðung af landinu. Síðan hafi Íslendingar áttað sig á því, segir Inga Dóra, að árangur aðstoðarinnar yrði aldrei mikill, ef ekki yrði unnið að félagslegri uppbyggingu og umbótum meðfram hinu. Nú hefur Ísland byggt fimmtán skóla og fjölda fæðingardeilda í landinu, aðallega í dreifðum og lítt aðgengilegum byggðum. Árangurinn sé bæði áþreifanlegur og mælanlegur; hundruð þúsunda ungmenna hafa lokið skólagöngu, sem annars hefðu ekki fengið mun minni ef nokkra menntun, og tíðni mæðra-, barna- og ungbarnadauða hefur minnkað um tugi prósenta í héraðinu sem starfsemin fer fram í.