Tilfinningaborgir, óendanlegt hús og það sem er

Orð um bækur - A podcast by RÚV

Categories:

Það sem er, nefnist skáldsaga eftir danska rithöfundinn Peter Asmussen frá árinu 2012 en um þessar mundir er verið að setja hana upp sem einleik í Tjarnarbíói. Verkið er Berlínarperíóda frá 9. Áratugnum og segir frá Renötu sem virðist lifa nokkuð venjulegu lífi í Austur Berlín en undir yfirborði hversdagslegs fjölskyldulífs geymir hún leyndarmál. Melkorka Gunborg Briansdóttir ræðir í þættinum við þau Maríu Ellingsen leikara verksins og Ólaf Egil Egilsson leikstjóra. Í nýafstöðnu jólabókaflóði kom út ljóðabókin Næturborgir eftir skáldið Jakub Stachowiak. Hann kemur frá Póllandi en lærði íslensku fyrir nokkrum árum og stundar nú nám í ritlist við Háskóla Íslands. Næturborgir er hans fyrsta ljóðabók á íslensku en hann birti einnig ljóð í ritinu Pólífónía af erlendum uppruna sem kom út fyrir jól. Skáldsagan Piranesi eftir breska rithöfundinn Susanne Clarke hlaut í haust hin alþjóðlegu verðlaun kvenna fyrir skáldskap eða á enskunni Women's prize for Fiction. Bókin segir frá Piranesi, sem myndi þó ekki sjálfur kalla sig Piranesi, hann býr nánast einn, fyrir utan Hinn, í óendanlega stóru húsi sem hefur sitt eigið vistkerfi, á neðstu hæðinni er haf en þeirri efstu ský og veggina þekja óendanlega margar styttur. Rithöfundurinn María Elísabet Bragadóttir las bókina bókina nú á dögunum og segir frá skáldsögunni Piranesi. Umsjón: Tómas Ævar Ólafsson