Orð*um hvalveiðar, borg skækjunnar og fjöru fulla af verksummerkjum

Orð um bækur - A podcast by RÚV

Categories:

Skáldið Brynja Hjálmsdóttir heimsækir þáttinn og ræðir um ljóðabókina Kona lítur við sem kom út í október hjá Unu útgáfuhúsi. Bókin er önnur ljóðabók Brynju en árið 2019 gaf hún út bókina Ok fruman og hlaut hún mikið lof. Kona lítur við er í þremur köflum og sýnir lesendum Óramanninn í gegnum skrárgat, ásamt hinum ýmsu sjónarhornum kvenna sem líta við og í lokin er lesendum boðið í heimsókn í feminíska útópíu sem nefnist Borg Skækjunnar. Þann 10 nóvember síðastliðinn kom út skáldsagan Stórfiskur eftir Friðgeir Einarsson hjá Benedikt bókaútgáfu. Stórfiskur segir frá íslenska hönnuðinum Frans sem ferðast til Íslands, frá heimili sínu í Þýskalandi, til að sækja sér heilbrigðisþjónustu og hefja rannsókn á umdeildu hvalveiðifyrirtæki sem hefur beðið hann um að hanna fyrir það vörumerki. Rithöfundurinn Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson kíkir einnig í heimsókn til og segir frá smásagnasafninu Svefngarðurinn sem kom út hjá Dimmu í haust. Þetta er annað smásagnasafn Aðalsteins Emils en í fyrra gaf hann út bókina 500 dagar af regni og fékk hún góðar viðtökur. Í Svefngarðinum má finna fjölbreyttar sögur sem eiga það flestar sameiginlegt að hverfast um ónefnt þorp á íslandi þar sem finna má fjöru sem nefnist einmitt Svefngarðurinn. Umsjón: Tómas Ævar Ólafsson og Jórunn Sigurðardóttir