Orð um verðlaunabækur ætlaðar börnum og rauðar ástarsögur

Orð um bækur - A podcast by RÚV

Categories:

Í þættinum er að þessu sinni hugað að nýafhentum verðlaunum fyrir barna - og ungmennabækur en í vikunni voru Íslensku barna bókaverðlaunin veitt í þremur flokkum, flokki frumsaminna barnabóka, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga. Verðlaunin hlutu Margrét Tryggvadóttir fyrir frumsamið verk, bókina Kjarval, málarinn sem fór sínar eigin leiðir, bókin Vigdís, saga um fyrsta konuforsetinn eftir Rán Fýgenring fékk verðlaun fyrir myndlýsingar og Þórarinn Eldjárn fékk verðlaunin fyrir þýðingu sína á bókinni Hver vill hugga krílið eftir Tove Jansson. Þá var rætt við Arndísi Þórarinsdóttur sem ásamt meðhöfundi sínum Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur tók við verðlaunum Guðrúnar Helgadóttur fyrir bókina Blokkin á heimsenda sem voru afhent í vikunni öðru sinni. Þá er í þættinum hugað að afþreyingarbókmenntum sem haldið er fram að séu eftirsóttustu bókmenntaverkin yfir sumarmánuðina og eru gjarnan glæpasögur og ásarsögur nefndar í því samhengi. Glæpasögur hafa náð að skapa sér ákveðna virðingu ástarsögurna hafa hins vegar öllu lengur mátt þola að teljast billegar bókmenntir og ófínar og svo er jafnvel enn. Eigi að síður er Ásútgáfan með sínar rauðu ástarsögur ein af stærri bókaútgáfum landsins. Í þættinum er rætt við Rósu Guðmundsdóttur sem ásamt eiginmanni sínum Kára Þórðarsyni hefur gefið út svokallaðar rauðar ástarsögur, þ.e. þýðingar á hinum fjöldaframleiddu Harlekine Enterprize bókum í 35 ár. Einnig er rætt við Dagnýju Kristjánsdóttur bókmenntafræðing um eðli ástarsagna og rannsóknir á þeim.