Orð um grímuball, skuggaskjól og strengi milli kynslóða

Orð um bækur - A podcast by RÚV

Categories:

Höfuðverk kúrdíska rithöfundarins Mehmeds Uzuns, Skuggi ástarinnar hefur nú komið út í íslenskri þýðingu Einars Steins Valgarðssonar. Bókin segir frá ungum mennta- og frelsisbaráttumanni manni sem nefnist Memduh Selîm, en hann er gerður útlægur í heimalandi sínu. Í bókinni stendur hann á krossgötum lífshamingju og hugsjóna. Jórunn Sigurðardóttir ræðir við Einar Stein Valgarðsson um bókina. Við heyrum einnig nokkur orð úr viðtali Jórunnar við Mehmed Uzun frá Alþjóðlegri Bókmenntahátíð í Reykjavíkur árið 2005. Óskilamunir nefnist nýútkomin bók Evu Rúnar Snorradóttur. Hún hefur áður sent frá sér þrjár ljóðabækur en ein þeirra, Fræ sem frjóvga myrkrið hlaut ljóðaverðlaunin Maístjörnuna fyrir árið 2018. Óskilamunir er safn sagna sem fjalla meðal annars um skilnað, upphaf ástarsambands og um mótundaráhrif sársauka sem ekki er unnið úr. Eva Rún Snorradóttir verður tekin tali um bókina í þætti dagsins. Við hugum líka að sveitinni. Búandkerlingin, rithöfundurinn og þýðandinn Harpa Rún Kristjánsdóttir gerði sér ferð í borgina í vikunni og heimsótti okkur hingað upp í útvarpshús til þess að segja okkur frá sinni fyrstu skáldsögu, Kynslóð. Bókin segir frá breytingim í lífi Maríönnu Maístjörnu Helgudóttur eða Önnu. Anna er sveitarkona sem, ólíkt mörgu örðu sveitarfólki skáldsagna, vill ekki komast burt úr sveitinni og flytja í borgina. Umsjón: Tómas Ævar Ólafsson og Jórunn Sigurðardóttir Lesari: Leifur Hauksson