Orð um furðusögur og skuggahlið jólanna

Orð um bækur - A podcast by RÚV

Categories:

Í bókmenntaþættinum Orð um bækur er fjallað um furðusögur. Sagt er frá nýliðinni furðusagnahátíð, Æsing, sem haldin var í Norræna húsinu á dögunum, og rætt við skipuleggjendur hátíðarinnar, Júlíus Á Kaaber og Fjalar Sigurðarson. Umsjónarmaður flettir svo í tveimur nýútkomnum barnabókum sem báðar mætti flokka sem furðusögur. Ég er svikari eftir Sif Sigmarsdóttir er vísindaskáldsaga sem segir frá því þegar geimverur ráðast á jörðina og hvernig hin fjórtán ára gamla Amy Sullivan reynir að bjarga mannkyninu. Bölvun múmíunnar eftir Ármann Jakobsson segir frá dularfullri atburðarás sem hefst þegar múmía farósins Hóremhebs er flutt á fornminjasafn í ónefndri borg og hvernig þrír unglingar rannsaka málið. Í þættinum er einnig fjallað um Skuggahliðin jólanna, safn kvæða og sagna sem varðveitt eru í Stofnun Árna Magnússonar. Efnið var tekið saman af Evu Maríu Jónsdóttur og Rósu Þorsteinsdóttur og spjallar umsjónarmaður við Rósu um miðlun sagnaarfsins. Umsjónarmaður þáttarins er Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir.