Þáttur 2 - Verkfallið

Nú hefur tíminn liðið og við vöknum í miðju verkfalli sem hefur sett allt í frost. Nema fisk auðvitað. Jón Hjaltalín er mættur á þing og við hlustum á hann messa yfir alþingi um verðbólgu, skort á réttindum fólks í verbúð og að sjómannaverkfallið sé að lama samfélagið. Harpa og Grímur eru milli steins og sleggju, að standa með sínu fólki eða laumast út á sjó til að geta borgað af togaranum. Þau ákveða að það eina í stöðunni sé að sigla út, sem vekur ekki mikla lukku meðal þeirra sem standa vörð um verkfallið. En ferðin gefur vel í aðra hönd, eftir að hafa troðfyllt bátinn af fisk er ákveðið að sigla til Hull þar sem Grímur og Einar labba út með töskur troðfullar af breskum pundum. Á meðan öllu þessu stendur reynir Harpa að taka Sæunni frá Tinnu móður sinni með ákveðnum klækjabrögðum. Ekki nóg með það heldur áformar Harpa að taka yfir fiskvinnsluna og heldur því til Reykjavíkur til að klára samninga við bankann, en einnig til að eiga kvöldstund með Jóni á hótelherbergi þar sem hún beitir Jóni þrýstingi til að kjósa með því að setja lögbann á verkfallið. Sem Jón og gerir og deilan virðist leyst. Á stuttum tíma hefur Harpa farið frá því að vera ritari bæjarskrifstofunnar í að sjá um eina stærstu fiskvinnslu á Vestufjörðum. Velkomin í annan þátt af Verbúðinni á heilanum, ég heiti Atli Már Steinarsson og í þættinum í dag ætla ég að kafa ofan í verkföllin sem voru tíð þarna á níunda áratugnum og fer mikið fyrir í síðasta þætti Verbúðarinnar, til þess fékk ég til mín Ögmund Jónasson sem ásamt öðrum fór mikinn í baráttu sinni fyrir réttindum verkafólks á þessum tíma. En áður en við stingum okkur á kaf í djúpu laug verkfallanna skyggnumst við aðeins á bakvið tjöldin við gerð þáttanna og fáum Sigurð Magnússon ljóshönnuð Verbúðarinnar til að segja okkur frá því hvernig það var að takast á við jafn stórt verkefni og Verbúðin er. Umsjón: Atli Már Steinarsson

Om Podcasten

Í þáttunum Með Verbúðina á heilanum ætlum við að kafa örlítið dýpra í ýmis mál og atburði sem tengjast þáttunum sjálfum. Við skyggnumst einnig á bakvið tjöldin og heyrum frá fólkinu sem gerði þættina, allt frá búningahönnuðum til leikstjóra og leikara. Þættirnir koma út strax að loknum útsendingu í sjónvarpinu og framlengja ferðalagið aftur til þess tíma þegar kvótinn var ákveðinn og bæjarfélög reyndu hvað þau gátu að tryggja sér bita af kökunni. Umsjón: Atli Már Steinarsson