Eldgosin heima: Grindavík og Eyjar I

Þetta helst - A podcast by RÚV

Categories:

Nú er liðin ein og hálf vika um það bil síðan jörð opnaðist á Reykjanesskaganum - í fjórða sinn á nokkrum árum. Gossprungan teygði sig inn fyrir varnargarðana sem áttu að vernda Grindavík, önnur opnaðist síðan innan þeirra og kvikan hlífði engu sem í vegi hennar varð. Þrjú einbýlishús, vegir og lagnir urðu gosinu að bráð. Og jörðin undir Grindavíkurbæ gliðnaði enn frekar. Sprungunum fjölgaði, undirlagið varð enn ótryggara. Nú þegar hafa þær tekið eitt mannslíf þegar Lúðvík Pétursson féll ofan í jörðina og hefur ekki fundist. Allt hefur verið gert til þess að koma í veg fyrir að sú hryllingssaga endurtaki sig. Meðal annars að flytja alla 3400 Grindvíkingana burt af svæðinu og banna þeim að fara heim til sín. Það er ekki talið öruggt og því nauðsynleg aðgerð, eins sársaukafull og hún er. Við skiljum það. Við höfum lent í þessu áður, við verandi Íslendingar. Í vikunni voru liðin 51 ár frá eldgosinu í Heimaey - sem hafði í för með sér umfangsmestu fólksflutninga Íslandssögunnar og stærstu og flóknustu almannavarnaragðerð sem yfirvöld höfðu staðið frammi fyrir á þeim tíma. Og það er því ekki að ástæðulausu sem við vitnum ítrekað til þeirra hamfara í tengslum við það sem Grindvíkingar standa nú frammi fyrir. BA verkefni Guðbjargar Helgadóttur í nútímafræði við Háskólann á Akureyri fjallaði einmitt um eldgosið í Heimaey: Fjölskyldur á flótta, áhrif eldgossins á Heimaey 1973 á íbúa hennar. Þetta er fyrri þáttur af tveimur þar sem Sunna Valgerðardóttir ber saman atburðina tvo og aðgerðirnar í kjölfarið.